föstudagur, 15. febrúar 2008

London!

Komin vika síðan við feðgar og mágur minn fórum út til London í fótboltaferð sem verður eftirminnileg. Hún var farin vegna þess að Gummi verður þrítugur þann 18. febrúar og vil ég óska honum til hamingju með þennann merka áfanga. Fórum og sáum Chelsea og Liverpool spila og var það bara gaman og kemur hér ferðasagan í stuttu máli og myndum.

Flugum út seinnipartinn á föstudeginum og má segja að við höfum rétt sloppið út en við komumst um borð í vélina rétt áður en versta veðrið skall á. Þurftum að bíða í vélinni á keflvíkurvelli í 2 og hálfan tíma áður en hún komst í loftið og tók flugið annað eins langan tíma. Við komuna til London var því drifið sig á hótelið þar sem þreyttir ferðalangar gátu hvílt lúin bein en pabbi og bróðir minn og mágur höfðu keyrt alla leið frá Akureyri fyrr um daginn.

Á Laugardeginum hittum við svo Albert frænda en hann vinnur og býr í London og hann leiddi okkur um borgina. Hinsvegar skiptu leiðir og fóru pabbi og Albert á markað en ég og Gummi og Jói fórum og skoðuðum Oxfordstreet en hittum svo pabba og Albert seinnipartinn. Fórum svo allir saman út að borða og fundum kóreskan veitingastað sem heitir Koba og var maturinn eldaður á borðinu þar sem við sátum.

Á sunnudeginum var svo komið að leiknum og var dagurinn meðal annars nýttur í smá skoðunarferð um borgina og var byrjað að skoða Tower Bridge og labbað yfir Thames ánna. Fórum svo á leikinn sem var alveg magnað og að fara á leik með uppáhaldsliðinu sínu í enska boltanum þ.e. Liverpool er einstök upplifun. Leikurinn var spennandi þrátt fyrir að engin mörk voru skoruð en liðin áttu ágætis færi á að skora og var það magnþrungið að fylgjast með því hvort mörk yrðu skoruð og hvort liðið hefði betur. Eftir leikinn héldum við til baka á hótelið með viðkomu á matsölustað og göngutúr meðfram Thames ánni og sáum meðal annars Big Ben og auga Lundúnaborgar á leiðinni.

Á mánudeginum var svo haldið heim til Íslands eftir vel heppna og skemmtilega ferð sem verður örugglega og vonandi endurtekin seinna meir.


Kveðja
Bjössi

p.s. ætlaði setja myndir með en svo virðist sem það ætli ekki að ganga.

föstudagur, 1. febrúar 2008

Comment

Svo virðist sem að ekki hafa allir getað commentað hjá mér og er ég búin að breyta því og ættu því allir að geta commentað núna.

Kveðja
Bjössi

sunnudagur, 13. janúar 2008

Fyrsta blogg 2008

Komið að fyrsta bloggi ársins í leiðinda veðri og persónulega vil ég frekar hafa snjó í einhvern tíma og losna við þessa umhleypinga í veðrinu. Spáir snjókomu á morgun með skemmtilegheitum... meira spennandi að tala um veðrið en boltann. Liverpool er ekki að standast væntingar í enska boltanum og íslensku strákarnir í handboltanum gengur mjög illa á EM.

En engu að síður byrjar 2008 vel og eftir gott jóla og áramótafrí tók við hversdagsleikinn með því sem því fylgir. Held áfram að vinna hjá Framtak í undirbúningi fyrir sveinsprófið sem verður 29. febrúar og 1. og 2. mars og er í þessarri viku í vinnu á renniverkstæðinu hjá Framtak. Fékk smá flashback í seinustu viku þegar við vorum að vinna við ljósavél um borð í Goðafossi. Sigldum með honum upp á Grundartanga en ég sigldi þar sem vélavörður eitt sumar og hef einnig farið sem rafvirki og meira að segja háseti líka.

Áttum góð áramót fyrir norðan hjá fjölskyldu minni þar og borðuðum virkilegan góðan kalkún á gamlársdag sem pabbi eldaði. Það skemmtilega við þetta var að við vorum öll fjölskyldan í mat með mökum og börnum. En það hefur ekki verið svo fjölmennt þarna í mat í langan tíma. Ég er svo að fara til London í byrjun febrúar á fótboltaleik en Gummi bróðir verður 30 í febrúar og er þetta afmælisgjöf til hans en við bræðurnir, pabbi og Jói mágur erum að fara saman. Komum til með að hitta Albert frænda þar og kemur kemur hann líklega með á leikinn en leikurinn er á millli Chelsea og Liverpool. Þess má geta að ég og Jói erum Liverpool fan en Gummi og pabbi eru Chelsea fan.

Kveðja Björn Ingi

mánudagur, 31. desember 2007

Gleðilegt nýtt ár!


Gleðilegt nýtt ár!


Árið 2007 er alveg að verða búið og ekki hægt að segja annað en árið hafi verið viðburðarríkt og margar skemtilegar stundir sem hægt væri að rifja upp en það ætla ég ekki gera núna. Það verða engin áramótheit þessi áramót heldur verður haldið áfram með þau markmið og væntingar frá árinu 2007 í nýja árið. Maður fer alltaf inn í nýtt ár með ákveðnar væntingar og vonir um að árið verði betra en árið á undan og það verður engin undantekning á því núna. Vil þakka öllum sem kíkja á bloggið hjá mér fyrir árið sem er að líða og óska ykkur gleðilegs nýs árs.

Áramótakveðja
Björn Ingi

laugardagur, 22. desember 2007

Jól, skata og hefðir og fleira gaman

Jæja kominn tími á smá blogg hérna. Var að ganga frá umsókn í sveinspróf í vélvirkjun sem verður haldið í byrjun mars á næsta ári. Er búinn að vera að vinna hjá Framtak í vélarupptektum og því sem fylgir því en það er liður í þjálfun fyrir sveinsprófið.

Desember mánuður er búinn að vera fljótur að líða í jólaundirbúningi þar sem vissar hefðir skapast og aðrar haldast í sessi. Einn laugardag á aðventunni buðum við hjónin tengdafjölskyldu minni í heitt súkkulaði og smákökur og fyrir mér er þetta þjófstart á jólin. Engu að síður var þetta skemmtilegt að vera með súkkulaði og smákökur á aðventunni og er þarna komin ný hefð og vonandi komin til að vera og bara tilbreyting frá amstri jólaundirbúningsins að setjast niður og njóta stundarinnar.

Við hjónin settum jólaljósinn upp einni helgi of snemma þar sem við ætluðum norður fyrstu helgina á aðventunni en komumst ekki vegna veðurs. kannski komin ný hefð að byrja á að setja jólaljósin fyrr upp og taka þau seinna niður í myrkasta skammdeginu en það er ekkert notalegra á meðan dagurinn er svona stuttur en jólaljósin sem lýsa heimilin og göturnar.
Nú er óðum að styttast í að jólin gangi í garð og undirbúningur á fullu og meðal annars var verið að gera heimalagað rauðkál sem verður með jólamatnum en sú hefð kemur frá ömmu minni í föður ætt.

Á Þorláksmessu er svo borðuð skata með tilheyrandi meðlæti og fyrir mér er það skemmtileg hefð. Þegar ég sigldi á fraktskipunum hjá Eimskip þá var alltaf skata og saltfiskur á laugardögum en ég fékk mér aldrey skötu því hún var fyrir mér hefð á þorláksmessu.

En fyrst fremst er njóta þessara hátiðastundar sem eru að ganga í garð og gleyma ekki meginmarkmiði jólana og láta ekki hefðir og stress trufla mann. Það ætla ég að gera og vonandi þið líka og ég vil óska öllum gleðilegra jóla og hafið það gott yfir hátiðina.

Jólakveðja
Björn Ingi